154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

neyðargeðheilbrigðisteymi og fræðsla viðbragðsaðila.

222. mál
[12:31]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þingkonu Evu Sjöfn Helgadóttur fyrir þetta mikilvæga mál. Það er svo sannarlega heiður að vera í hópi þeirra sem flytja málið með henni. Það er nú einu sinni þannig með allt sem tengist viðbragði, hvort sem það er lögreglu, sjúkrabíla eða annarra, að þar hefur orðið þróun í gegnum árin. Fyrst voru sjúkrabílarnir eingöngu mannaðir fólki með tiltölulega grunna menntun, í sjúkraflutningum og fyrstu hjálp. Það hefur síðan þróast. Á tímabili voru læknar í því sem var kallað hjartabíllinn, ef ég man rétt, sem voru bílar sem voru sérstaklega kallaðir út þegar hjartaáfall eða eitthvað slíkt var talið vera mögulegt. Það þróaðist síðan út í það að bráðatæknar, sem á ensku kallast „paramedics“, tóku við af læknunum. Sýnt var fram á að með því að þjálfa sjúkraflutningamenn meira og meira upp í þekkingu og reynslu var hægt að bæta viðbragðið og þjónustuna sem veitt er þeim sem viðbragðsaðilarnir eru að koma til hjálpar.

Það hefur líka breyst hverjir það eru sem eru kallaðir út. Stundum var lögreglan alltaf kölluð út og síðan var því breytt yfir í sum útköll o.s.frv. Þetta hefur allt þróast eins og við sem samfélag höfum þróast og líka eins og þessi mál hafa þróast út um allan heim. Það er mikilvægt að við horfum til reynslu annarra þjóða í því hvernig hægt er að meðhöndla þessi mál á betri máta fyrir fólk sem lendir í vanda.

Í þessari þingsályktunartillögu er einmitt verið að ræða um það hvernig eigi að hjálpa betur því fólki sem á við geðrænan vanda eða vímuefnavanda að stríða og að sinna því fólki getur verið allt önnur þjónusta en við að sinna einhverjum sem er að fá hjartaáfall. Við þurfum að hugsa út fyrir boxið sem við erum í núna og horfa til þess hvernig við getum þjónustað þennan hóp betur. Tökum þessa tillögu og hugsum um útfærslu: Ef til staðar er geðheilbrigðisteymi sem hægt er að kalla út með nokkurra mínútna fyrirvara eins og gert er með sjúkrabílana — jú, það yrði kostnaður við að hafa slíkt teymi tilbúið og á vakt. En eins og hv. þm. Eva Sjöfn Helgadóttir benti á hefur þetta sparað mikið, þar sem þetta hefur verið útfært, í öðrum kostnaði. Það væri um að gera að fara í prufuverkefni hér á landi í eitt ár þar sem þetta yrði prófað á einum stað, t.d. í Reykjavík, og þetta yrði útfært og mælt og reynt að sjá hvort þetta væri kannski leið til að skera niður eða draga úr miklum kostnaði annars staðar. Við verðum að vera tilbúin að hugsa þetta og prófa. Ef við prófum þetta ekki sitjum við föst í því fari að svona hafi þetta verið gert undanfarin 20 ár og því best að hafa það þannig áfram næstu 20 árin. Við megum alls ekki festast í því, sér í lagi þar sem við erum með heilbrigðiskerfi þar sem peningarnir eru takmarkaðir. Við þurfum að vera tilbúin að horfa á lausnir sem kannski spara annars staðar.

Það hefur t.d. oft verið bent á það, þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, að vegna þess hve erfitt er að komast til heimilislæknis þá endi fólk á bráðamóttökunni þar sem það kostar tíu sinnum ef ekki hundrað sinnum meira að taka við hverjum sjúklingi en að taka við honum á heilsugæslunni. Það sama getur verið að gerast hér. Neyðargeðheilbrigðisteymi gæti sinnt einhverjum sem annars myndi enda inni á bráðamóttöku fyrir þá sem eru með vímuefnavanda. Það kostar miklu meira að fá þá þangað inn og ef neyðarteymi getur sinnt því þá erum við að draga úr þeim kostnaði. Það er því mjög mikilvægt að horft sé á þetta mál með opnum huga, ekki bara út frá því að þarna getum við sinnt fólki betur heldur líka, sem ætti nú að gleðja einhverja úr Sjálfstæðisflokknum, sparað peninga. Þarna gætum við slegið tvær flugur í einu höggi.

Ég hvet hv. velferðarnefnd og þá sem í henni sitja til að horfa á þetta með opnum huga og taka þetta mál til umræðu í nefndinni og heyra hvernig þeir aðilar sem þetta snýr að taka í þessar hugmyndir og jafnvel hvernig ráðuneytið tekur í þær. Kannski þarf að leggja málið fram svona sjö til átta sinnum áður en ríkisstjórnin fattar að þetta sé sniðugt. En ég vona að við getum fengið góða og málefnalega umræðu um þetta hér á þingi. Ég held að þetta sé leið til að tækla þetta vandamál, bæði út frá þjónustustigi gagnvart þeim sem þetta tengist en líka hvað það varðar að finna ódýrari og betri lausnir sem veita betri þjónustu en við getum veitt í dag fyrir minni pening.